Það er dálítið sniðugt hvernig sumir hlutir í geimnum minna á hluti sem við sjáum í kringum okkur á jörðinni. Skoðaðu til dæmis þessa mynd sem sýnir tug þúsundir stjarna. Þær hópast þétt saman og minna um margt á flugnager sem margir þekkja, til dæmis við Mývatn.
Þessi stjörnuhópur er kallaður kúluþyrping. Stjörnurnar haldast nálægt hver annarri vegna þyngdarkraftsins. Allar urðu þær til á sama tíma og úr sama gasskýinu. Þessar stjörnur eru því systur!
Stjörnurnar eru miklu eldri en nálægasta stjarnan við okkur, sólin. Sólin okkar er aðeins 5 milljarða ára en stjörnurnar í þyrpingunni eru yfir 10 milljarða ára. Raunar eru kúluþyrpingar með elstu fyrirbærum alheimsins!
Alheimurinn var allt öðruvísi staður þegar þessar gömlu stjörnur urðu til miðað við það þegar sólin okkar varð til. Þá voru færri tegundir af hráefnum til í stjörnurnar — aðallega vetni. Sólin okkar varð hins vegar til úr vetnisgasskýjum sem innihélt ýmis önnur hráefni, til dæmis súrefni, járn og gull.
Þessi hráefni urðu til innan í stjörnum sem dóu, annað hvort hægt og rólega eða í miklum sprengingum. Eftir að stjörnurnar dóu dreifðust efnin um geiminn. Þegar stjörnurnar í kúluþyrpingum urðu til var alheimurinn enn svo ungur að ekki hafði gefist tími til að krydda geimgasið á þennan hátt!
Fróðleg staðreynd
Í kúluþyrpingunni eru um 100.000 stjörnur á svæði sem aðeins er 25 sinnum stærra en bilið milli sólar og næstu stjörnu við hana!
Información adicional
Þessi Space Scoop frétt er byggð á fréttatilkynningu ESO.
Share: